8-10 bekkur

Hæfniviðmið í hönnun og smíði við lok 10 bekkjar

Hæfniviðmiðum í hönnun og smíði er skipt upp í þrjá efnisflokka og eru þeir megináherslusvið greinarinnar. Flokkarnir tengjast þó allir innbyrðis. Undir handverk falla markmið er miða að því að efla verkvit, þekkingu á efnum og færni í notkun verkfæra. Lögð er áhersla á að nemendur geri sér grein fyrir hvenær frágangur telst vandaður. Undir hönnun og tækni falla markmið er lúta að hönnun og því að efla skilning nemenda á skipulagningu vinnu, hönnunarferli og gerð áætlana. Einnig er lögð áhersla á að efla tæknilegt innsæi nemenda og skilning. Undir umhverfi falla markmið er miða að því að efla skilning nemenda á tengsl umhverfisins við verkleg störf og kemur það m.a. fram í efnisvali. Lögð er áhersla á að nemendur læri rétta notkun hlífðarbúnaðar og þekki hugtakið vinnuvernd.

Við lok 10. bekkjar á  nemandinn að geta:

Handverk

 • valið aðferðir, efni og verkfæri við hæfi og sýnt rétta og ábyrga notkun verkfæra,
 • sagt frá mikilvægi verkþekkingar í nútíma samfélagi.

Hönnun og tækni

 • útskýrt hugmyndir sínar fríhendis- og með grunnteikningu,
 • unnið sjálfstætt eftir verkáætlun og vinnuteikningu, útbúið efnislista og reiknað kostnað,
 • framkvæmt flóknari samsetningar, s.s. samlímingu, töppun og skrúfun,
 • hannað verkefni út frá efni, fagurfræði, tækni, umhverfi, notkun og endingu,
 • sagt frá hvernig tækni er nýtt í atvinnulífinu.

Umhverfi

 • greint vistvæn efni frá óvistvænum og haft sjálfbærni að leiðarljósi við vinnu sína, s.s. við efnisval,
 • gert sér grein fyrir hvort og hvernig hægt er að endurnýja ýmsa hluti til að lengja líftíma þeirra,
 • beitt viðeigandi vinnustellingum og notað réttan hlífðarbúnað og fjallað um vinnuvernd og hvers vegna reglur þar að lútandi eru settar
 • gert grein fyrir áhrifum nýsköpunar á umhverfi sitt og samfélag.