5-7 bekkur

Hæfniviðmið í hönnun og smíði við lok 7 bekkjar

Hæfniviðmiðum í hönnun og smíði er skipt upp í þrjá efnisflokka og eru þeir megináherslusvið greinarinnar. Flokkarnir tengjast þó allir innbyrðis. Undir handverk falla markmið er miða að því að efla verkvit, þekkingu á efnum og færni í notkun verkfæra. Lögð er áhersla á að nemendur geri sér grein fyrir hvenær frágangur telst vandaður. Undir hönnun og tækni falla markmið er lúta að hönnun og því að efla skilning nemenda á skipulagningu vinnu, hönnunarferli og gerð áætlana. Einnig er lögð áhersla á að efla tæknilegt innsæi nemenda og skilning. Undir umhverfi falla markmið er miða að því að efla skilning nemenda á tengsl umhverfisins við verkleg störf og kemur það m.a. fram í efnisvali. Lögð er áhersla á að nemendur læri rétta notkun hlífðarbúnaðar og þekki hugtakið vinnuvernd.

Við lok 7 bekkjar á  nemandinn að geta:

 Handverk

  • valið og notað á réttan hátt helstu verkfæri og mælitæki,
  • gert grein fyrir uppruna og notagildi þess efniviðar sem notaður er í smíðastofunni.

Hönnun og tækni

  • útskýrt hugmyndir sínar með því að rissa upp málsetta vinnuteikningu,
  • lesið einfalda teikningu, smíðað eftir henni og unnið eftir hönnunarferli frá hugmynd að lokaafurð,
  • valið samsetningar og yfirborðsmeðferð sem hæfa verkefnum,
  • hannað og smíðað verkefni sem nýtir orkugjafa og lýst því hvaða virkniþættir eru að verki í ýmsum hlutum,
  • lýst hvernig tæknin birtist í nánasta umhverfi hans og almennt í samfélaginu,
  • greint þarfir í umhverfi sínu og rætt mögulegar lausnir.

Umhverfi

  • gert grein fyrir hvort efni séu hættuleg og hvernig hægt er að endurnýta og flokka efni
  • sem fellur til í smíðastofunni,
  • gert við og endurnýjað eldri hluti og lengt þannig líftíma þeirra,
  • útskýrt réttar vinnustellingar og valið viðeigandi hlífðarbúnað.